Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Hvalaskoðun í Þorlákshafnarfjöru

Í dag, sunnudaginn 22. apríl, rúntuðum við til Þorlákshafnar til að skoða þennan fræga hval sem liggur þar dauður í fjörunni. Þetta var fínasti bíltúr og upplifun fyrir börnin að sjá þetta og að upplifa lyktina sem var á svæðinu, ojjjj. Við erum nýbúin að hafa 3 danska karlmenn, Søren, Henrik og Peter, á heimili okkar og höfum við notað helgina í að jafna okkur á því vegna þess að svona heimsókn tekur ótrúlega mikla orku frá manni. Maður reynir jú allt til að ferðalangar eigi góða og eftirminnilega ferð til Íslands.

Kareokí

Þá erum við búin að rúnta á Geysissvæðið, sáum Geysi sína krafta sína. Fórum svo í Skyggni og hittum þar Gumma og Ingu náttúrlega og Halldór Sigmar. Stuttu eftir komu okkar þangað birtust Jónína, Guðrún Sesselja og Guðm. Óli. Guðrún var með 2 barna sinna. Seinna komu svo Magga og Steini, þannig að allt í einu var þetta orðið að litlu ættarmóti. Mjög gaman. Núna er komið kvöld og erum við Stefán á leiðinni í X-factor partý í Þorlákshöfn og Kareokíkvöld í Ráðhúskaffi á eftir. Gunna og Þorleifur ætla að leyfa Kristínu Huld að gista í Mosó og Eyþór, Guðrún Lilja og Halldór Sigmar verða hér heima og hafa það huggulegt yfir bíómyndum. Best að drífa sig í sturtu.

Bíltúr á föstudaginn langa

Þá er öll fjölskyldan samankomin á Dælengi 14. Gott að fá ferðalangana heim og ég held að þeir séu bara nokkuð sáttir að vera komnir, heima er best. Í dag, á föstudaginn langa, ætlum við í örlítinn bíltúr. Ætlum jafnvel að byrja á því að fara í Þjórsárdal og skoða litla reitinn okkar sem við köllum Texas. Ætlum að taka einnota grill með okkur og grilla einfaldan mat, pylsur í brauði. Við reiknum með að hitta fullt af fólki þar sem fólk er nú loks komið í páskafrí. Þaðan ætlum við svo að heimsækja sjúklinginn í Skyggni, hana Ingu og fjölskyldu. Henni tókst að slíta liðbönd í ökkla fyrir nokkrum dögum svo hún liggur þar með fótinn í gifsi. Það verður hálf skrítið á sjá hana þannig, manneskja sem alltaf er á fleygiferð um allt. Eigið nú notalegan dag og helgi og passið ykkur í umferðinni.

Nýjar / eldri myndir

Þá er komið kvöld og mikið búið að vera að gera hjá okkur Kristínu Huld í dag. Við fórum út í garð og lögðum a.m.k. 50 hellur. Við erum nefnilega að undirbúa það að heiti potturinn fari norðan megin við húsið. Það fer að verða klárt og þá er bara að safna 8 - 10 karlmönnum til að færa pottinn yfir. Við erum líka búnar að bæta við alveg fullt af myndum á síðuna. Endilega kíkið á þær. Hugsa að nú verði gert eitthvað hlé á þeirri vinnu í bili. Klukkan er orðin margt og ég jafnvel á leiðinni í bælið. Fer svo á morgun á Keflavíkurflugvöll og sækja börn og eiginmann sem eru að koma heim frá vikudvöl í Danmörku. Til hamingju með afmælið, Katrín Salka. Mamma þín átti afmæli í gær, til hamingju með það. Góða nótt.

2 dagar í þau

Þá eru ekki nema 2 dagar í að restin af fjölskyldunni komi heim. Okkur er svo sem ekkert búnar að láta okkur leiðast. Nýt þess, þannig séð, að fá smá frí frá eldamennskunni. Í dag fórum við út í garð að klippa trén og drifum okkur svo til háls, nef og eyrnalæknis. Kristín Huld er nefnilega búin að vera með leiðinda hósta í um 2 mánuði. Fékk vott af þessari RS veiru sem lagðist reyndar aðallega á ungabörn, svo fékk hún bronkítis út frá því og að lokum var honum komin með sýkingu í kinnholur. Í röntgenmyndatöku sást líka að hún var með mjög stóra nefkirtla. Læknirinn sá að allt kvef er farið úr henni, en samt er hún með ljótan hósta ennþá en hóstar sem betur fer sjaldan. Nú er hún búin með lyfjaskammtinn og ef hóstinn fer versnandi næstu daga þá er næsta ferli að taka nefkirtlana. Það er víst fljótgert. Þeir eru teknir í svæfingu og tekur um 15 mínútur og verður komin heim til sín aftur hálftíma seinna.

Í kvöld erum við Kristín Huld að fara á kóræfingu í nýju húsi Tónlistarskóla Árnesinga. Það verður mjög gaman að koma þangað og skoða. Vegna þessa þá ákvað ég nú að svæfa barnið núna til að hún verði til friðs á meðan ég þen mig með kórnum í kvöld. Annað kvöld ætlum við svo jafnvel á bingó í Íþróttahúsinu Iðu, sjáum til.


Örþreyttar stelpur

Þá erum við Kristín Huld komnar inn eftir heilmikla útiveru. Gengum fyrst út í Blómaval og komum svo heim og settum trampólínið saman, öryggisnetið og hvað eina. Smá beyglað eftir kollhnísinn í haust/vetur en sleppur alveg. Hann Bassi á Sunnuveginum þurfti reyndar að rétta fyrir mig tvær stangir. Það var nú bara gaman að kíkja aðeins á hann, gamla nágrannann. Nú erum við mæðgurnar semsagt komnar inn þreyttar og með eplakinnar, eins og hún segir sjálf. Og aðeins 3 dagar þangað til við fáum stóðið okkar aftur heim, það verður nú gott. Við verðum þá að finna okkur eitthvað að gera á morgun og hinn, það á nú alveg að vera hægt að finna eitthvað út úr því, við höfum bæði garðinn og heilan bílskúr fullan af "drasli". Hlakka til að fá ykkur heim, krúsurnar mínar. 

Andvökunótt

Ég var andvaka í nótt. Þegar ég var búin að liggja í 2 klukkutíma og enn glaðvakandi þá gafst ég upp. Ég var með hugann hjá börnunum mínum í Danmörku, þau eru þar á heimaslóðum og hjá Dóru Stínu. Eftir að hafa séð allar þessar myndir af þeim með frændsystkinum sínum þá fékk ég ekki hugann af þeim. Þetta er nú forsenda þess að ég stóð á fætur og ákvað að hefja svona bloggsíðu eins og stelpurnar eru að gera. Lilja Rós er nú búin að tala um þetta lengi við mig. Nú brosir hún örugglega út í annað  Wink  . Við Kristín Huld ætlum að klippa trén í dag og bara að vera aðeins úti í garði. Við vorumhjá ömmu hennar og afa í Mosó í gær og höfðum það huggulegt. Þar var Kristín að perla, teikna og horfa á Bamba 2 með honum afa. Við Gunna hvíldum okkur á meðan. Það er svo skrítið, maður slakar svo rosalega á í Bugðutanganum. Skil ekkert í þessu. Jæja, best að fara að gefa barninu morgunmat. Annars dundar hún sér svo mikið inní herberginu sínu að það er synd að trufla hana, situr á gólfinu og er að púsla.  

Bloggið stofnað

Hæ, Dóra og Mallý. Þegar ég fór að skoða allar myndir ykkar og upplýsingar á bloggsíðunum ákvað ég að nú yrði ég að koma mínu af stað. Ykkar vegna. Það verður örugglega til þess að ég verði duglegri að taka myndir og að við getum verið meira í sambandi í gegnum þessa tækni. Klappið nú fyrir mérWink.


Höfundur

Anna Þórný Sigfúsdóttir
Anna Þórný Sigfúsdóttir

 

Grunnskólakennari á Flúðum

Bloggvinir

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband